Kostnaður við kaup

Kostnaður við fasteignakaup

Gjöld sem kaupandi þarf að inna af hendi v. kaupsamnings:

Við undirritun kaupsamnings greiðir kaupandi eftirtalin gjöld:

a) Stimpilgjald af kaupsamningi:

Kaupandi greiðir 0,8 % í stimpilgjald af heildarfasteignamati, þ.e. lóðarmat + húsmat.

Sé um fyrstu kaup að ræða greiðist 0,4% af heildarfasteignamati. 

Sé um lögaðila að ræða greiðist 1,6% stimpilgjald af heildarfasteignamati. 

 

b) Stimpilgjald greiðist ekki af nýjum veðlánum:

Lántökugjald nýrra lána er almennt ca. kr. 50.000. fast gjald óháð lánsfjárhæð.  


b) Þinglýsingarkostnaður

Er kr. 2.000.- af hverju skjali sem þinglýst er.c) Þjónustu og umsýslugjald:


Gjald sem kaupandi greiðir á grundvelli samnings við fasteignasöluna fyrir ráðgjöf, hagsmunagæslu í gegnum allt ferlið, umsýslu skjala, ferðir í lánastofnanir, til sýslumanns ofl.

Nánar er fjallað um þetta gjald á heimasíðu.


Þjónustu og umsýslugjald fasteignasala

Að undanförnu hefur nokkur umræða verið um svokallað þjónustu og umsýslugjald sem að fasteignasölur hafa innheimt af kaupendum fasteigna. Nokkurs misskilnings virðist hafa gætt vegna þessa gjalds og því m.a. haldið fram að ekki sé heimild til þess að innheimta gjaldið. Hér á eftir verður reynt að varpa ljósi á þá þjónustu og umsýslu sem að fasteignasalar inna af hendi í þágu kaupandans og þau rök er búa að baki.

Lög nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa hafa að geyma margs konar ákvæði þess efnis að fasteignasali skuli gæta hagsmuna kaupanda til jafns við hagsmuni seljanda eins og var einnig í eldri lögum. Með þessu er fasteignasölum skapaðar jafn ríkar skyldur gagnvart kaupanda og seljanda og getur fasteignasalinn orðið persónulega refsi- og/eða skaðabótaábyrgur vegna þjónustu sinnar við kaupanda. Augljóst er til þess að fasteignasali geti rækt lögboðnar skyldur sínar við kaupanda að oft er um erfiða og tímafreka vinnu að ræða í hans þágu.

Til þess að fasteignasalar geti rækt lagalega skyldu sína þá ber þeim að inna af hendi margvísleg störf í fasteignakaupaferlinu í þágu kaupenda, m.a. má nefna:

1. Margháttuð upplýsingaskylda hvílir á fasteignasala að gæta hagsmuna kaupanda. Þess má m.a. geta að gerðar eru kröfur um mjög ítarlegt söluyfirlit en þar er um að ræða upplýsingar sem fasteignasali hefur sjálfur aflað og brýn nauðsyn er á að þau mikilvægu atriði sem að þar er kveðið á um séu kynnt mjög ítarlega fyrir kaupanda áður en ákvörðun er tekin um kaup.
2. Aðstoð við framsetningu og gerð kauptilboðs. Fasteignasala ber að gæta þess að samningsgerðin sé vönduð með það fyrir augum að réttarstaða kaupanda við kauptilboðið sé trygg.
3. Oft er um það að ræða að fasteignasalar veiti margháttaða ráðgjöf og aðstoð við kaupanda varðandi ýmsa þætti varðandi fasteignalán frá lánastofnunum. Mikil vinna er samhliða þessu mikilvæga ferli og verður fasteignasali sjálfur að bera ábyrgð á því að skuldabréf sem að gefið hefur verið út af lánastofnun berist sýslumanni til þinglýsingar og að ná í það aftur til þess að koma því til lánastofnunarinnar að nýju.
4. Skjalagerð vegna kaupsamnings þar sem gætt er hagsmuna kaupanda skv. lögum.
5. Þinglýsing kaupsamnings og annarra skjala. Nauðsynlegt er að fasteignasali sjái sjálfur um að koma skjölum til þinglýsingar enda getur það varðað hann skaðabótaskyldu ef kaupandi eða seljandi hyggjast ganga frá þeim málum og gögnin skila sér ekki.
6. Frá því kaupsamningur er gerður og þangað til að fasteignasali vinnur að gerð afsals líður að jafnaði nokkur tími. Á þeim tíma koma mjög oft upp margs konar fyrirspurnir frá kaupendum er varða viðskiptin og sinna fasteignasalar þá út frá sérþekkingu sinni að leiðbeina kaupendum um þær leiðir sem mögulegar eru og sinnir sáttahlutverki á milli aðila til þess að setja niður deilur og tryggja hagsmuni beggja. Í mörgum slíkum tilfellum eyðir fasteignasalinn miklum tíma í skoðun á eignum, samtöl og fundi í þeim tilgangi að reyna að leysa mál farsællega.
7. Skjalagerð vegna afsals þar sem að einnig er gætt hagsmuna kaupanda. Þá er algengast að einnig fari fram samfara afsalsgerðinni lögskilauppgjör á milli aðila sem fasteignasalinn sér um og þar þarf einnig að gæta hagsmuna kaupanda.

Af þessu má sjá að það er margháttuð vinna sem fasteignasalar vinna í þágu kaupanda og ber þeim réttur til gjaldtöku skv. lögunum vegna þessara starfa. Hvað varðar gjaldtökuna þá ber fasteignasölum skv. lögum að gera skriflegan samning við kaupendur um störfin og kynna kaupendum hvaða verkefnum fasteignasalinn sinni fyrir þá. Þá getur og verið um ýmis önnur störf fasteignasalans fyrir kaupandann að ræða en fram koma hér að framan.

Hvað varðar gjaldtöku vegna fyrrgreindrar þjónustu og umsýslu fasteignasalans við kaupanda þá er sú gjaldtaka frjáls enda skv. samkeppnislögum bannað að gefa út bindandi eða leiðbeinandi verðskrár. Margar fasteignasölur fara þá leið að innheimta ákveðið fast gjald vegna þessarar þjónustu og almennt virðist það gjald mjög hóflegt. Þetta hefur þótt sanngjarnara í garð kaupenda en að hafa gjaldið með þeim hætti að það sé með öllu óljóst hvert það verði áður en yfir lýkur, en slíkt kynni að teljast óhæfilegt gagnvart kaupandanum.

Væru störf fasteignasala unnin þannig að hann gætti einungis hagsmuna seljanda þyrfti kaupandi í langflestum tilvikum að leita aðstoðar sérfróðra aðila m.a. sjálfstætt starfandi lögmanna til að gæta hagsmuna sinna vegna hinna miklu hagsmuna sem liggja að baki fasteignakaupum með tilheyrandi kostnaði í för með sér fyrir kaupanda. Vegna þessa m.a. taldi löggjafinn eðlilegt að fasteignasali gætti hagsmuna beggja aðila.

 

Grensásvegur 13 - 2 hæð | 108 Reykjavík | Sí­mi: 6-900-811 | Fax: 6-900-811 |  
Keyrir á WebEd frá Hugsandi Mönnum